Sagan

Helstu tíðindi úr sögu Orkuveitu Húsavíkur


Árið 1917 var byggð 50 kW rafstöð við Búðará sem er lítil á sem rennur í gegnum bæinn. Raunverulegur rekstur stöðvarinnar er talinn hefjast 15. ágúst 1919. Árið 1946 hófst endurnýjun útikerfis með byggingu spennistöðva og 6 kV dreifingar. Sumarið 1947 var núverandi 30 kV lína lögð frá Laxárvirkjun til Húsavíkur.  Orkustöð var tekin í notkun árið 2000 og framleiðir hún raforku úr 120°C heitu vatni frá Hveravöllum. Aflgeta stöðvarinnar er 1,7 MW, og getur stöðin framleitt um 70% af orkuþörf Húsavíkur.

Vatnsveita var lögð árið 1926 á Húsavík en núverandi vatnsból var tekið í notkun 1947. Lögð var ný lögn frá vatnsbóli að Orkustöð á Kaldbaksleiti, árið 2000. Virkjað vatn í vatnsbóli er nú um 300 l/s, en virkjanlegt kalt vatn í landi Húsavíkur er talið vera 1000-1200 l/s. Affallsvatn frá Orkustöð er u.þ.b. 200 l/s og 25°C heitt.

Hitaveita Húsavíkur var stofnuð 1970, en þá var lögð um 18 km löng asbestæð frá Hveravöllum til Húsavíkur. Í upphafi voru nýttir um 30 l/s af 100°C heitu hveravatni. Fljótlega kom í ljós að bora þurfti eftir meira vatni. Árið 1974 var boruð 450 m djúp hola sem gefur nú um 25 l/s, önnur 650 m djúp hola var boruð 1997 sem gefur um 65 l/s. Vatn úr borholum er 125°C heitt og sjálfrennandi. Vegna hæðarmunar milli Hveravalla og Húsavíkur er lítil þörf á dælingu hjá veitunni. Árið 1999 var lögð ný aðveituæð til Húsavíkur. Er um að ræða einangraða stálpípu sem getur flutt allt að 150 l/s af 125-130°C heitu vatni, til iðnaðarnota og húshitunar á Húsavík. Frá Orkustöð er hægt að afhenda vatn á bilinu 4°C-120°C.

Rafveita, Vatnsveita og Hitaveita voru sameinaðar 1. janúar 1996 undir nafni Orkuveitu Húsavíkur.

Orkuveita Húsavíkur ehf. var stofnuð þann 11. febrúar 2005 með heimild í lögum nr. 13/2005 sem samþykkt voru á Alþingi 16. mars 2005.  Lögin heimiluðu Húsavíkurbæ að stofna einkahlutafélag um Orkuveitu Húsavíkur frá og með 1. janúar 2005.  Skv. lögunum tók Orkuveita Húsavíkur ehf. við einkarétti Húsavíkurbæjar og Orkuveitu Húsavíkur til starfrækslu hita-, raf- og vatnsveitu á Húsavík og yfirtók skyldur tengdar rekstri þeirra sem kveðið var á um í öðrum lögum.

Þann 6. nóvember árið 2009 skrifuðu forsvarsmenn Orkuveitu Húsavíkur annars vegar og Rarik og Orkusölunnar hins vegar, undir samninga um kaup síðarnefndu félaganna á raforkuhluta Orkuveitunnar. Rarik og Orkusalan yfirtóku þannig dreifingu rafmagns og rafmagnssölu frá og með 1. janúar 2010. Einnig var tryggður samningur um sölu á framleiðslu frá virkjun Orkuveitunnar á Hrísmóum. Virkjunin skyldi áfram í rekstri Orkuveitunnar en hún er samtengd rekstri hitaveitu fyrirtækisins.

Þann 29.september 2010 náðu Landsvirkjun og Orkuveita Húsavíkur samkomulagi um kaup Landsvirkjunar á 28,771% hlut Orkuveitu Húsavíkur ehf. í hlutafélaginu Þeistareykjum ehf. Eftir söluna á Orkuveita Húsavíkur ehf. 3,2% hlut í félaginu. Samhliða sölunni gerði Norðurþing og Landsvirkjun með sér samstarfssamning um nýtingu raforku á umráðasvæði Þeistareykja ehf.  Aðilar voru sammála um að stuðlað yrði að því svo sem kostur væri að áhugasamir orkukaupendur myndu hefja orkufreka starfsemi í Þingeyjarsýslum og orkukaup frá Þeistareykjum ehf. og Landsvirkjun eftir atvikum.

Samkomulag náðist við breska fyrirtækið Global Geothermal limited. hinn 31.desember 2010 um samvinnu  við viðgerð og enduruppbyggingu Orkustöðvar félagsins á Hrísmóum. GGL hefur einkaleyfi fyrir Kalina tækninni sem notuð er til rafmagnsframleiðslu í stöðinni. Samkomulagið fól í sér yfirtöku GGL á Orkustöðinni meðan viðgerð færi fram og yrði viðgerðarkostnaðurinn greiddur af GGL. Orkuveita Húsavíkur myndi svo leysa til sín stöðina aftur þegar sýnt væri fram á rekstrarhæfni hennar.

Staðan eftir þær ráðstafanir sem farið var í á árunum 2009 og 2010 var sú að Orkuveita var stöndug fjárhagslega og í því ljósi taldi stjórn Orkuveitunnar mikilvægt að hugað yrði að framtíðinni, það var að marka stefnu fyrir fyrirtækið til að svara þeirri spurningu hvert það vildi stefna í framhaldinu af þeim breytingum sem áttu sér stað. Í upphafi ársins 2011 réðist því stjórn Orkuveitu Húsavíkur ehf. í stefnumótunarvinnu.

Niðurstaðan var sú að Orkuveita Húsavíkur skyldi breyta um rekstrarform og verða opinbert hlutafélag, sem fyrirtækið varð í upphafi ársins 2012. Það skyldi gert til að senda skýr skilaboð um það að Orkuveita væri og yrði um ókomna tíð í eigu sveitarfélagsins, þ.e. almannaeigu. Því til viðbótar var ástæðan sú að um opinber hlutafélög gilda lög sem gera almenningi hægara um vik að fá upplýsingar um fyrirtækið, rekstur og samþykktir.

Kjarnastarfsemi var ennfremur skilgreind fyrir hið opinbera félag en hún er veitustarfsemi. Þá var ákveðið að bæta fráveitum við þá starfsemi sem þegar fór fram innan fyrirtækisins, þ.e. vinnslu og dreifingu heits og kalds vatns. Samningur um kaup Orkuveitunnar á öllum vatns- og fráveitum í Norðurþingi var undirritaður hinn 2. janúar 2012.