Orkuveita Húsavíkur ohf. óskar eftir tillögum frá áhugasömum aðilum um hagnýtingu á aðstöðu núverandi orkustöðvar OH

Orkuveita Húsavíkur ohf. óskar eftir tillögum frá áhugasömum aðilum um hagnýtingu á aðstöðu núverandi orkustöðvar OH við Hrísmóa 1 á Húsavík til framleiðslu rafmagns, en með því yrðu þær orkuafurðir sem berast stöðinni nýttar frekar og betur en nú er gert.

Í tengslum við verkefnið hefur verið ráðist í gerð samkeppnislýsingar sem ætlað er að kynna verkefnið og tilgreina þær upplýsingar sem óskað er eftir að umsækjendur leggi fram, en með lýsingunni eru veittar samræmdar upplýsingar til allra  aðila sem áhuga hafa á að leggja fram tillögur sínar um hagnýtingu orkustöðvar OH.

Ráðstöfun orkustöðvar OH getur farið fram með ýmsum hætti,  en með samkeppnislýsingu þessari kallar OH eftir tillögum samkvæmt fjórum mögulegum leiðum við ráðstöfun orkustöðvar þar sem orkustöðinni yrði ráðstafað til raforkuframleiðslu. Leiðirnar fjórar eru eftirfarandi:

1. Með tímabundnu framsali/afnotarétti á orkustöð til hagnýtingarðila með kvöð um afhendingu

     uppbyggingar.

2. Kaup hagnýtingaraðila á orkustöð með einhliða rétti OH til endurkaupa síðar fyrir tiltekið verð.

3. Sameiginlegt verkefni OH og hagnýtingaraðila við uppbyggingu og rekstur orkuframleiðslu.

4. Tilboð til OH um kaup og uppsetningu tæknilausnar til orkuframleiðslu í orkustöð sem OH rekur.

 

OH telur mikilvægt að veita bjóðendum sem mest svigrúm til að leggja fram tillögur sínar fyrir framtíðarstarfsemi í orkustöðinni innan þessara fjögurra leiða og er t.a.m. engin afmörkun gerð gagnvart tilteknum framleiðsluaðferðum og leitast er við  að skapa áhugasömum aðilum sem mest svigrúm til að móta tillögur sínar. Mikilvægt er að greinargóðar upplýsingar fylgi tillögum svo sem um fjárfestingakostnað verkefnis/tillögu, reynslu af framleiðsluaðferð, reynslu bjóðenda o.s.frv.

Sérstök dómnefnd mun fara yfir innsendar tillögur. Komi til þess að tillaga eða tillögur sem dómnefnd telur bestar m.t.t. hagsmuna OH og þeirra sjónarmiða sem fram koma í samkeppnislýsingunni teljist falla undir reglur um útboðsskyldu verður efnt til útboðs þar sem öllum þeim er leggja fram tillögur undir þeirri leið sem OH telur besta við fyrirkomulag ráðstöfunar orkustöðvar verður þá gefinn kostur á að leggja fram tilboð í formlegu útboði.

Um allar nánari upplýsingar vísast til samkeppnislýsingar sem má nálgast hér ásamt öðrum fylgigögnum. Athugið að skrá þarf nafn fyrirtækis og netfang til þess að geta nálgast gögnin.