Aðalfundur Orkuveitu Húsavíkur fór fram 22. apríl sl.

Aðalfundur Orkuveitu Húsavíkur fór fram 22. apríl síðastliðinn. Dagskrá fundarins var með hefðbundnum hætti.  Ársreikningur fyrir árið 2023 var lagður fyrir og samþykktur.

Ein breyting var gerð á stjórn Orkuveitu Húsavíkur en Hafrún Olgeirsdóttir kemur inn sem varamaður í stað Birnu Ásgeirsdóttur.  Stjórn Orkuveitunnar skipa: Sigurgeir Höskuldsson, Valdimar Halldórsson og Bylgja Steingrímsdóttir. Varamenn eru Eysteinn Heiðar Kristjánsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Hafrún Olgeirsdóttir 

Traustur rekstur Orkuveitu Húsavíkur ohf.
Rekstur Orkuveitunnar gekk vel á árinu 2023. Tekjur námu 455 milljónum króna og hagnaður ársins nam 186 milljónum króna. Til samanburðar þá nam hagnaðurinn 86 milljónum króna á árinu 2022.Á árinu var áætlaður líftími varanlegra rekstrarfjármuna félagsins endurmetin sem leiddi til lækkunar á afskriftarprósentum, þar af leiðandi lækkuðu afskriftir varanlegra rekstrarfjármuna um 53 milljónir. Eigið fé í árslok nam 2.234,6 milljónum króna og eiginfjárhlutfall var 95% í árslok. Vaxtaberandi skuldir voru engar í árslok.  Fjárfestingar á árinu 2023 námu 86 milljónum króna og arðgreiðsla til eigandans, Norðurþings, nam 66 milljónum króna. Lausafjárstaða Orkuveitunnar var mjög sterk í lok árs, handbært fé nam 490 milljónum króna og virði markaðsverðbréfa í loks árs námu 280 milljónum króna.

Hér má skoða ársreikning Orkuveitu Húsavíkur fyrir árið 2023